Ræktun

Skelrækt við strendur Íslands hefur verið í þróun um árabil. Einkum hefur verið unnið að bláskeljarækt en fleiri skeltegundir eru taldar koma til greina. Einnig er rétt að geta þess að víðast er þörungarækt spyrt við skelrækt vegna þess hve búnaður og aðstæður sem krafist er fyrir greinarnar er svipaður.

Nokkur fyrirtæki hafa verið stofnuð um bláskeljarækt sem hafa náð misjöfnum árangri.

Ræktun i sjó er í grundvallaratriðum ólík eldi að því leyti að ekki er um fóðrun að ræða. Rekstrarlega er hér um mikinn mun að ræða vegna þess að í eldi fer um helmingur rekstrarkostnaðar í fóður og fóðrun. Fóðrunarþátturinn er ekki fyrir hendi í ræktun þar sem lífveran nærir sig alfarið sjálf og lifir í raun eins og villt skel í náttúrulegu umhverfi. Einnig er sá munur á ræktun og eldi að í eldi er um að ræða lífverur sem haldið er í einhverskonar lokuðu kerfi og hrygningu og klaki er stjórnað. Í skelrækt er náttúrulegum lirfum safnað eftir eðlilega hrigningu hjá tegundinni í umhverfinu. Lirfurnar safnast á hengilínurnar á sama hátt og þær taka sér bólfestu á fjörugrjóti. Ræktunarskelin lifir því sama lífi og fjöruskelin nema hvað aðstæður á ræktunarbúnaði eru hagstæðari. Ræktunarskel er vex hraðar en fjöruskel og er laus við vandamál eins og sand og perlumyndun.

Það sem helst háir skelrækt á Íslandi eru mikill afföll af línum, sérstaklega á veturna. Þá getur æðarfugl valdið miklu tjóni á skel, af ákveðinni stærð, ákveðinn tíma úr ári.